
Mahler nr. 3
Hið mikilfenglega stórvirki Mahlers fær að hljóma í Hörpu í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kóra og einsöngvara. Þriðja sinfónía Mahlers er heill heimur út af fyrir sig – í senn óður til náttúrunnar og djúphugul könnun á mannlegu hlutskipti. Tónskáldið samdi verkið við bakka Attersee í Austurríki þar sem svipmyndir af veðurfari, gróðri og dýralífi fléttuðust inn í tónsmíðarnar. „Það er sem straumur sköpunarinnar hafi hrifið mig með sér!“ ritaði tónskáldið í bréfi. Áheyrendur berast með sama straumi í heillandi ferðalag. Hinn stórbrotni fyrsti þáttur hefst á sumarkomu, þeir næstu eru helgaðir lifandi verum – blómunum á enginu, dýrum skógarinar og sjálfum manninum – en síðustu tveir þættirnir lúta að upphafnari fyrirbærum: englunum og ástinni. Lokaþátturinn er kærleiksríkur þakklætissöngur til alls heimsins.
Sinfónían krefst óvenjustórrar hljómsveitar, tveggja kóra og einsöngvara. Einsöngvari í Eldborg er þýski messósópraninn Christina Bock sem er þekkt fyrir sérlega blæbrigðaríka túlkun og hefur komið fram víðsvegar um Evrópu. Vox feminae, Kammerkórinn Aurora og Stúlknakór Reykjavíkur syngja undir stjórn Stefans Sand Groves, Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur og Margrétar Pálmadóttur en hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Aðgengi
Mjög gott hjólastólaaðgengi í Hörpu. Tónmöskvi er í miðasölu.
Stoppistöðin Harpa er næst Hörpu en einnig er stoppistöðin Lækjartorg nálægt.