Listaspjall: Inga Huld & Katrín

Inga Huld Hákonardóttir, höfundur verksins Again the Sunset og Katrín Gunnarsdóttir, höfundur verksins ALDA, hittast í Klúbbnum og ræða verk, vinnuaðferðir og straumana á danssenunni. Bæði verkin eru á aðaldagskrá Listahátíðar 2022.

Inga Huld og Katrín eru með framsæknustu danshöfundum landsins og hafur unnið víða á hinni alþjóðlegu dans- og gjörningasenu.

Um Again the Sunset eftir Ingu Huld Hákonardóttur:

Again the Sunset verður sýnt í Tjarnarbíói þann 12. júní kl 20:00.

Again the Sunset er upplifun sem dansar á mörkum þess að vera tónleikar og gjörningur; andsetinn ástarsöngur sem ferðast um röddina og inn í líkamann, inn í hið hráa og frumstæða, líkt og vera sem tjáir sig án þess að eiga sér áskapað form.

Tvær mannverur birtast okkur. Þær vinna til þess að halda áfram og halda áfram til þess að vinna, þær færa það sem þarf að færa og syngja það sem þarf að syngja um svikula steina, vafasöm ský og vonlausar sögur af ástinni. Orðin hnita hringi líkt og hugsanir sem sækja á þær; kraftar náttúrunnar mæta nálgun sem hverfist um hið skúlptúríska og hjóðræna.

Hljóðheim verksins skapar Yann Leguay, hljóðlistamaður sem reynir á þanþol listformsins og hefur tekið þátt í sýningum og hátíðum í ýmsum löndum. Í sýningunni sameinar þetta listafólk krafta sína til að skapa hljóð- og sjónræna hugsanaflækju á andvökunótt.

Um ALDA eftir Katrínu Gunnarsdóttur og Evu Signýju Berger:

ALDA opnar í Gerðarsafni þann 11. júní kl. 14:00.

ALDA er áhrifarík innsetning á mörkum dans og myndlistar, flutt af hópi kvendansara, þar sem danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir sækir í sögu líkamlegrar vinnu kvenna og skoðar sérstaklega endurteknar hreyfingar og söngva, með það að markmiði að skapa aðstæður fyrir nána kvenlæga samveru, samhug og samruna.

Síðustu ár hefur Katrín unnið að því að byggja upp hreyfitungumál og myndmál þar sem mýkt, viðkvæmni, síbreytileg hreyfing og samruni líkama við umhverfi sitt leika lykilhlutverk. Í verkinu birtist margra ára farsælt listrænt samstarf Evu Signýjar Berger hönnuðar og Katrínar okkur á nýjum vettvangi þar sem listform fléttast saman og úr verður taktföst alda upplifana. Titill verksins endurspeglar ölduna sem hreyfiform en vísar einnig í tímann og söguna, hið gamla og nýja.

Gestir geta staldrað við og notið sýningarinnar eins lengi og þeir vilja.

Það er alltaf frítt inn og öll kærlega velkomin í Klúbbinn.

13. JÚN

Dagsetning

13. júní 2022, kl. 12:00-13:00

Staðsetning

Verð

Ókeypis

Listafólk

Inga Huld Hákonardóttir, Katrín Gunnarsdóttir

Aðgengi

Í Iðnó er gott aðgengi fyrir hjólastóla.

STRÆTÓ: 1, 3, 6, 11, 12, 13, 55

Merktu daginn