Til baka
Til baka
#reykjavikartsfestival2018 #listahatid2018
12
desember

Styrkur frá Fullveldishátíð

Fjögur glæsileg verkefni sem verða á næstu Listahátíð hafa fengið styrk frá afmælisnefnd fullveldishátíðar Íslands. Það eru verkin Edda, Bræður, Þar ríkir fegurðin ein? og R1918. 

Kallað var eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisárs Fullveldisins. Fjölmargar áhugaverðar tillögur bárust. 100 verkefni fengu styrki og eru fjögur verk þeirra á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Það eru verkin Edda, Bræður, Þar ríkir fegurðin ein? og R1918. 

EDDA í uppsetningu Det Norske Teatret í leikstjórn Robert Wilsons er sýning ólík öllu sem áður hefur sést á íslensku leiksviði.  Tónlistarstjórn er í höndum íslenska tónlistarmannsins Valgeirs Sigurðssonar. Frumsamin tónlist í verkinu er eftir systurnar í Coco Rosie.

BRÆÐUR  er fyrsta ópera Daníels Bjarnasonar sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda í Danmörku og er flutt af íslenskum og erlendum stórsöngvurum. Óperan er byggð á kvikmyndinni Brothers eftir Susanne Bier.

ÞAR RÍKIR FEGURÐIN EIN? er samsýning íslenskra listamanna frá ýmsum tímum allt frá frumkvöðlum íslenskar málaralistar þegar landið og víðerni þess voru táknmyndir frelsis og sjálfstæðis og til verka listamanna samtímans með vísan í hnattræna umræðu um gildi hins ósnortna og nýtingu auðlinda.

R1918Tíminn fellur saman á Listahátíð í Reykjavík 2018. Líkt og leiftur úr fortíð birtast okkur Reykvíkingar ársins 1918 og horfa beint í augun á okkur. R1918 er stórt samstarfsverkefni Listahátíðar, RÚV, Landsbókasafns og Borgarsögusafns. Áætlað er að 200 almennir borgarar hið minnsta muni taka þátt í verkefninu.