Til baka
Til baka
#reykjavikartsfestival2018 #listahatid2018
23
janúar

Nýr klúbbstjóri

Elísabet Indra hefur verið ráðin klúbbstjóri Listahátíðar í Reykjavík. 

Eftir að hafa legið í dvala í mörg ár verður Klúbbur Listahátíðar endurvakinn á Listahátíð 2018 og hefur Elísabet Indra Ragnarsdóttir verið ráðin sem klúbbstjóri. 

Klúbbur Listahátíðar 2018 verður opinn alla dagana sem hátíðin varir eða frá 1.-17. júní og verður að þessu sinni staðsettur í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Klúbburinn verður sérstaklega innréttaður fyrir hátíðina í fjölnotarými safnsins og þar verður hægt að njóta ljúfra veitinga og úrvals listviðburða fyrir alla aldurshópa á meðan á hátíðinni stendur.

Elísabet Indra Ragnarsdóttir er með masterspróf í tónlistarfræðum frá Goldsmiths í London, BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands og fiðlukennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík auk diplómu í heimilda- og fléttuþáttagerð fyrir útvarp. Hún hefur starfað sem útgáfustjóri Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu og verkefnastjóri Mengis, listrýmis við Óðinsgötuna. Hún er nú verkefnastjóri tónlistardeildar LHÍ. Hún hefur að auki sinnt kennslu og ýmsum menningartengdum verkefnum. Hún er einn af liðsmönnum Innra eyrans sem hefur gert hljóðverk fyrir Listahátíð í Reykjavík og sviðslistahátíðina Lókal.