1.-16. júní 2024

6. apríl 2020

Víkingur Heiðar í Hörpu 6. & 7. september

Listahátíð í Reykjavík fagnar fimmtíu ára afmæli sínu í ár og hefur undirbúningur veglegrar afmælishátíðar staðið yfir í hartnær tvö ár. Hátíðin átti að fara fram 6.–21. júní nk. Nú hefur Covid-19 faraldurinn sett strik í þær áætlanir og færast því tónleikar Víkings Heiðars fram í september.  

Víkingur Heiðar Ólafsson sem var útnefndur listamaður ársins á Gramophone-verðlaununum árið 2019 heldur tónleika á Listahátíð. Í fyrra hreppti þessi framúrskarandi tónlistarmaður einnig verðlaun BBC Music Magazine fyrir einleiksplötu ársins auk þess sem plata hans var valin sú besta þvert á alla flokka. Þá hlaut hann þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik, auk Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Á tónleikunum leikur hann óviðjafnanlega efnisskrá af nýrri einleiksplötu sem kemur út hjá Deutsche Grammophon á vormánuðum. Á fyrri hluta tónleikanna teflir hann á einstakan hátt saman hljómborðsverkum Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau, tveggja risa franskrar tónlistar, sem tengjast djúpum böndum þó 150 ár hafi skilið þá að. Að loknu hléi flytur hann svo eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Mussorgsky, í stórglæsilegri umritun Vladimirs Horowitz.