21. maí — 5. júní 2016
 
V Blóðhófnir

Blóðhófnir

Tónlistarhópurinn Umbra

Tjarnarbíó
01. júní kl 20:30

Verð: 4.400 kr.
Deila

Tónlistarhópurinn Umbra flytur nýtt tónleikhúsverk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, byggt á mögnuðum ljóðabálki Gerðar Kristnýjar, Blóðhófni, í sviðsetningu Sögu Sigurðardóttur.
 
Í Blóðhófni segir jötunmærin Gerður Gymisdóttir sögu sína af því er Freyr sendi skósvein sinn Skírni að sækja hana í Jötunheima, á hestinum Blóðhófni. Gerður vildi vera um kyrrt í Jötunheimum, þar sem árnar runnu um æðar hennar, en með ógnum og göldrum eru öll völd af henni tekin.
 
Ástin komin
með alvæpni
 
Drengurinn dró fram
sverð hert í hatri
 
skeftirð skorið úr
grimmd
 
Blóðhófnir byggir á hinum fornu Skírnismálum sem skáldkonan Gerður Kristný flutti listilega í nútímalegt söguljóð og hlaut fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 í flokki skáldverka. Fyrir verkið var hún jafnframt tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012. Umbra notar upprunahljóðfæri og raddir í tónlistarflutningi sínum. Í samstarfi við Sögu Sigurðardóttur skapa þær tónheim á sviði Tjarnarbíós þar sem goðsögnin um Gerði Gymisdóttur verður enn að nýju ljóði í hljóðfærum þeirra, röddum og hreyfingum.
 
Flytjendur:  
Kontrabassi og söngur: Alexandra Kjeld
Keltnesk harpa, harmóníum, söngur: Arngerður María Árnadóttir
Barokkfiðla og söngur: Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir
Barokkvíóla og söngur: Kristín Þóra Haraldsdóttir
Söngur: Lilja Dögg Gunnarsdóttir
Tónlist: Kristín Þóra Haraldsdóttir
Texti: Gerður Kristný
Sviðssetning: Saga Sigurðardóttir
Myndvörpun: Tinna Kristjánsdóttir
Aðstoð við búninga og myndræna framsetningu: Edda Guðmundsdóttir