21. maí — 5. júní 2016
 
Schumann x 3

Schumann x 3

Sunnudagsmorgnar í Fríkirkjunni

Miðaverð á eina tónleika er 3.500 krónur. Tónleikapassi á alla þrenna tónleika kr. 8.500.

Fríkirkjan í Reykjavík
01. janúar Ágúst, Hanna Dóra, Gerrit 01. janúar Hanna Dóra, Gerrit 01. janúar Ágúst, Gerrit

Verð: 3.500 — 8.500 kr.
Deila

Á Listahátíð 2010 lögðu þeir Ágúst Ólafsson og Gerrit Schuil í það stórvirki að flytja ljóðasöngflokka Schuberts; Malarastúlkuna fögru og Vetrarferðina, ásamt söngvasafninu Svanasöng og voru þeir fluttir í Fríkirkjunni þrjá sunnudagsmorgna í röð. Móttökur áheyrenda og gagnrýnenda voru með eindæmum jákvæðar og hlutu tónlistarmennirnir Íslensku tónlistarverðlaunin sem bestu tónlistarflytjendur ársins fyrir framtak sitt.

 

Nú eru Ágúst og Gerrit mættir aftur til leiks og í þetta sinn hefur söngkonan Hanna Dóra Sturludóttir slegist í hópinn.

 

Robert Schumann er tengdur ljóðasöngnum órjúfanlegum böndum, enda samdi hann ófá af uppáhaldslögum söngunnenda.  Tónleikaröðin Schumann x 3 gefur áheyrendum tækifæri til að hlýða á mörg af þessum uppáhaldslögum.

 

Ljóðasöngflokkur er þó annað og meira en bara samansafn góðra sönglaga. Tónskáld eins og Schubert og Schumann sömdu og röðuðu niður lögum í flokka sem hver um sig skapar einstaka stemmningu og upplifun. Flytjendur og áheyrendur leggja saman af stað í ævintýralega ferð í tónum og orðum, eins og þeim sem sóttu tónleikana 2010 er vel kunnugt.

 

Dagsetning:

Sunnudagur 19. maí, kl. 11

Hanna Dóra Sturludóttir, Ágúst Ólafsson, Gerrit Schuil

Liederkreis við ljóð H.Heine, opus 24

Myrten/Brúðarlauf; Liederkreis við ljóð eftir ýmsa höfunda, opus 25

 

Sunnudagur 26. maí, kl. 11

Hanna Dóra Sturludóttir, Gerrit Schuil

Frauenliebe und Leben/Ástir og líf konu við ljóð A. Chamisso, opus 42

Gedichte der Königin Maria Stuart/Ljóð drottningarinnar Maríu Stúart, opus 135

Liederkreis við ljóð J. von Eichendorff), opus 39

 

Sunnudagur 2. júní, kl. 11

Ágúst Ólafsson, Gerrit Schuil

Dichterliebe/Ástir skáldsins við ljóð H.Heine, opus 48

Liederreihe við ljóð J. Kerner, opus 35

 

 

 

 

Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnar og framhaldsnám í Listaháskólanum í Berlín hjá Dietrich Fischer-Dieskau og Aribert Reimann. Hún kemur fram á tónleikum víða um heim og syngur við mörg helstu óperuhús Þýskalands, meðal þeirra Bonn, Weimar, Kassel, Komische Oper og Ríkisóperu Berlínar. Á meðal þeirra um fjörutíu hlutverka sem hún hefur túlkað á ferlinum eru Greifynjan (Brúðkaup Figarós), Cio Cio San (Madame Butterfly), Marie (Wozzek), Miss Jessel (The Turn of the Screw) og „Miss Donnithorne´s Maggot“ í Ríkisóperunni í Berlín. Undanfarin ár hefur Hanna Dóra tekið þátt í fjölmörgum uppfærslum óperusmiðjunnar Novoflot í Berlín, sem sérhæfir sig í frumflutningi á nýrri óperutónlist. Á Íslandi hefur hún sungið í uppsetningum Íslensku óperunnar (Töfraflautan 2001, Tökin hert 2005 og titilhlutverk Ariadne auf Naxos 2007) haldið fjölda ljóðatónleika og sungið Vínartónleika með Salónhljómsveit Sigurðar Ingva Snorrasonar. Hún hefur einnig sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mörg tækifæri. Í apríl síðastliðnum flutti hún með hljómsveitinni Wesendonck ljóðaflokkin eftir Richard Wagner og fékk einstakt lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína.

 

Ágúst Ólafsson stundaði nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjá Eiði Á.Gunnarssyni og síðan við Sibelíusar Akademíuna hjá Jorma Hynninen og Sauli Tiilikainen. Ágúst sótti tvenn meistaranámskeið hjá heimsfrægu sópransöngkonunni Elísabetu Schwarzkopf og um tíma reglulega einkatíma hjá henni. Ágúst hefur sungið á þýsk söngljóð (Lieder) á tónleikum víða m.a. í Filharmonie í Berllín og Wigmore Hall í Lundúnum. Hann hefur sungið einsöng með kórum og hljómsveitum á Íslandi og erlendis undir stjórn m.a. Hannu Linttu, Petri Sakari og Paul McCreesh. Hlutverk Ágústs hjá Íslensku óperunni til þessa eru m.a. titilhlutverkið í Sweeney Todd,  Papagenó í Töfraflautunni, hlutverk Skuggans í Rake´s Progress, Harlekin í Ariadne á Naxos, Marcello í La Boheme og Belcore í Ástardrykknum haustið 2009 en fyrir síðastnefnda hlutverkið hlaut hann Grímuverðlaun sem söngvari ársins. Ágúst flutti þrjá söngljóðaflokka Schuberts ásamt píanóleikaranum Gerrit Schuil á þrennum tónleikum á Listahátíð 2010.  Flutningur Ágúst og Gerrit á þessum meistaraverkum tryggði þeim íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjendur ársins það árið.

 

Gerrit Schuil er fæddur í Hollandi. Hann nam við Tónlistarháskólann í Rotterdam og síðar í London og París. Árið 1978 tók Gerrit þátt í alþjóðlegu námskeiði fyrir hljómsveitarstjóra hjá rússneska hljómsveitarstjóranum Kirill Kondrashin og naut þess heiðurs að vera eini nemandi hans síðustu ár hans.  Gerrit hefur leikið á tónleikum víða um Evrópu, Bandaríkin og í Asíu, tekið þátt í hátíðum og unnið með fjölda söngvara og hljóðfæraleikara. Hann hefur einnig stjórnað mörgum evrópskum og amerískum hljómsveitum bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum, m.a. hljómsveitum hollenska útvarpsins sem voru einnig hljómsveitir hollensku ríkisóperunnar.
Frá 1992 hefur Gerrit búið á Íslandi og verið leiðandi í tónlistarlífi þjóðarinnar bæði sem píanóleikari og stjórnandi m.a. Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar. Þá hefur hann stýrt tónlistarhátíðum og leikið inn á geisladiska með mörgum af bestu tónlistarmönnum landsins. Árið 2000 hóf Gerrit samstarf við Lichtenberger Institut fyrir söng og hljóðfæraleik í Þýskalandi. Hann var einnig kennari hjá Listaháskóla Íslands og kennir í söngskólanum „Sigurður Demetz“. Gerrit hlaut ásamt Ágústi Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2010 fyrir flutning sinn á söngljóðaflokkum Schubert á á Listahátíð í Reykjavík.

 

 

 

 

 

 

 Ljósmynd:  Arnaldur Halldórsson