21. maí — 5. júní 2016
 
Lúðurhljómur í skókassa

Lúðurhljómur í skókassa

Yfirlitssýning yfir gjörninga Magnúsar Pálssonar

Sýningarstjórar Hanna Styrmisdóttir & Jón Proppé

Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús
18. maí Opnun 19. maí — 01. september

Opið alla daga kl. 10:00-17:00
og fimmtudaga til kl. 20:00

Deila

Listahátíð í Reykjavík og Listasafn Reykjavíkur standa saman að yfirlitssýningu yfir lifandi verk Magnúsar frá árinu 1980 – 2013. Á sýningunni verður hið skapandi tilraunarými á milli listgreinanna eins og það hefur birst í gjörningum Magnúsar gert lifandi og aðgengilegt fyrir áhorfendur. Hinir margvíslegu þræðir sem verk hans hverfast um verða lokkaðir fram í endurtúlkun tónskálda, leikara, myndlistarmanna og listnemenda. Sýningin verður smám saman til fyrir augum áhorfenda vikuna 18. – 25. maí, samhliða því að fimm gjörningar Magnúsar verða endurfluttir í nýrri mynd og nýtt verk, Stuna, frumflutt.

 

“Myndlistarmaðurinn sá að það var út í bláinn að maður úr marmara væri skúlptúr en maður úr holdi og beinum væri það ekki. Og hann staðhæfði: Ég er skúlptúr. Þegar ég hreyfi mig er ég hreyfanlegur skúlptúr og um leið og ég gef frá mér hljóð er ég hljóðskúlptúr.

 

Sá sem er meðvitaður um að vera skúlptúr hrærist strax í annarri vídd. Hann stendur fyrir framan spegil og gaumgæfir útlit sitt og er þá á skúlptúrsýningu sem breytist auðveldlega í konsert. Þegar hreyfingar og hljóð verða flóknari er kominn gjörningur, nefnilega leikhús og þá er stutt í umhverfisverk.” MP

 

Magnus-Palsson-trio_590pxw

Magnús Pálsson hefur alla tíð starfað á mörkum leikhúss, tónlistar og myndlistar. Hann hóf feril sinn sem leikmyndahönnuður hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu og kom strax árið 1951 fram með annars konar formvitund og nútímalegri sýn á leikhúsið en íslenskir áhorfendur áttu að venjast. Áhugasvið hans náði þó út fyrir leikhúsið og hann var fljótlega kominn í samstarf við myndlistar- og tónlistarmenn, auk leikhússfólks.

 

Um nokkurra ára skeið deildi Magnús vinnustofu í Reykjavík með listamanninum Dieter Roth og saman er óhætt að segja að þeir tveir hafi verið leiðandi í þeim miklu umbreytingum sem áttu sér stað í íslenskri myndlist á sjöunda og áttunda áratugnum. Ásamt Dieter var Magnús virkur í Fluxus-hreyfingunni, alþjóðlegum hópi listamanna sem leitaðist við að endurnýja listina í gegnum tilraunir með nýja miðla og nýja hugsun. Magnús var líka fyrstur íslenskra myndlistamanna til að vinna verk í anda hinnar nýju hugmyndalistar. Á Íslandi var smátt og smátt farið að tala um þessar nýju stefnur undir einu nafni: Nýlist.

 

Auk leik- og kórverka er Magnús þekktur fyrir gjörningahverfa skúlptúra og teikningar. Færri þekkja handritin að gjörningunum sem mörg hver eru bókverk í sjálfu sér og eru mikilvægur hlekkur í að miðla þróun í verkum Magnúsar og tengslunum á milli leikhúss, tónlistar og myndlistar í verkum hans. Hann hefur alla tíð leitað fanga í bókmennta- og tónlistararfleið Íslendinga og annarra þjóða, s.s. í Íslendingasögunum, verkum Hómers, hinu írska The Táin og Passíusálmunum, en einnig í verkum sem eru nær okkur í tíma, allt frá þekktum breskum försum til hasarmyndablaða síðustu áratuga. Stærsta áhugamál hans og viðfangsefni margra verka eru hljóð og hrynjandi tungumálsins og hið rýmisbundna form þess, en leikur og grín eru aldrei víðs fjarri.

Eftirfarandi gjörningar verða fluttir á Lúðurhljómi í skókassa:

 

Sprengd hljóðhimna vinstra megin & Stuna: laugardaginn 18.maí kl. 14:00, Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhúsi

Einsemd: steypa mánudaginn 20.maí kl.14:00, Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi

Ævintýr & Þrígaldur þursavænn: fimmtudaginn 23.maí kl. 18:00, Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi

Kross: laugardaginn 25.maí kl. 20:00

 

Ljósmyndir:  Rafael Pinho