21. maí — 5. júní 2016
 
Ævintýr / Þrígaldur þursavænn

Ævintýr / Þrígaldur þursavænn

Tveir gjörningar eftir Magnús Pálsson

Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi
01. janúar Ævintýr og Þrígaldur þursavænn

Verð: 2.000 kr.
Deila

Ævintýr er byggt á ítalskri þjóðsögu í endursögn Italo Calvino. Magnús breytir þó sögunni töluvert, einkum endinum. Hún fjallar um jarðyrkjumann sem gengur fram á lík á akrinum. Hann veitir því nábjargir og ver með trjágreinum. Daginn eftir ber svo við að hrífa mannsins tekur til óspilltra málanna og hamast ein á akrinum, honum til mikillar ánægju. Öfundarmenn hafa þó af honum vinnuna. Atvinnulaus slæst hann í för með betlara nokkrum og semja þeir um helmingaskipti á öllum arði. Þegar kóngsdóttir ein verður ástfangin af manninum heimtar betlarinn því helming hennar.

 

Verkið er samið fyrir einn sögumann og þrjár aðrar raddir og hefur verið flutt nokkrum sinnum, fyrst á hljóðljóðahátíðinni Be Poetry í Bologna á Ítalíu 1997 og nú síðast í Modern Art Oxford 2011. Eins og önnur verk Magnúsar hefur það tekið breytingum í hvert sinn sem það er flutt. Tónskáldin Atli Ingólfsson og Þráinn Hjálmarsson nálgast hér verkið útfrá sjónarhóli tónlistarinnar sem fólgin er í tungumálinu og er sem rauður þráður í gjörningum Magnúsar.

 

Tilreiðsla og leikstjórn: Atli Ingólfsson og Þráinn Hjálmarsson

Flytjendur: Bergur Ingólfsson , Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Sigurður Skúlason, Una Margrét Jónsdóttir

 

 

Í Þrígaldri þursavænum er leitast við að koma til skila þeirri tilfinningu að atburðir gerist fyrir utan sjónarsvið okkar þessa stundina. Í verkinu er einnig reynt á nærveru einnar persónu athafnalausrar á sviðinu um nokkurn tíma og innkomu og dvöl annarrar persónu sem líka er þögul og athafnalaus. Hvað gerist í athafnaleysinu? Hver er merking þess að svið standi autt um óþægilega langan tíma?

 

Verkið var frumflutt á menningarnótt árið 2000.  Hér er það flutt í útfærslu nemenda Listaháskóla Íslands.

 

Stjórnandi: Ingibjörg Magnadóttir

Aðstoðarstjórnandi: Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir

 

Gjörningarnir eru hluti af sýningunni Lúðurhljómur í skókassa, sem er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Reykjavíkur.

 

Ljósmynd: frá sýningu Magnúsar Pálssonar í Modern Art Oxford 2011 í samvinnu við European Live Art Archive

 

Sjá einnig á vef Listasafns Reykjavíkur