1.-16. júní 2024

Listahátíð í Reykjavík 2020

6. júní 2020 - 30. júní 2021

Þema hátíðarinnar „HEIMAR"

Þemað á Listahátíð 2020 var „Heimar" og er nokkurs konar systurþema hátíðarinnar 2018 sem var Heima.

Listahátíð fagnaði 50 ára afmæli sínu árið 2020. Því er viðeigandi að dagskrá hennar kallist að einhverju leyti á við heima mismunandi tíma og endurspegli eða vísi í sögu hátíðarinnar.

Listahátíð hefur frá upphafi verið gátt milli íslensks menningarlífs og annarra menningarheima. Á tímum vaxandi þjóðernishyggju, er mikilvægara en nokkru sinni að leyfa þessari gátt að standa galopinni um leið og horfst er í augu við krefjandi siðferðisspurningar um þau neikvæðu áhrif sem ferðalög og neysla eru að hafa á umhverfi okkar.

Heimarnir eru óteljandi. Listir, tækni og vísindi takast á og opna margslunginn, risavaxinn veruleika upp á gátt, svo ofboðslegan að við neyðumst til að minnka hann niður í litla heima. Heiminn minn, hvers og eins. Enginn heimur stendur þó stakur heldur er til í stöðugu samtali og togi við aðra heima; annan skilning - önnur lögmál.

Í ljósi Covid-19

Listahátíð í Reykjavík átti að fara fram dagana 6.–21. júní 2020 og samningar höfðu tekist við mikinn fjölda innlendra og erlendra listamanna um glæsilega dagskrá. Covid-19 faraldurinn setti strik í þær áætlanir – líkt og flest annað í samfélaginu.  

Listahátíð vildi á þessum fordæmalausu tímum hvorki bregðast því listafólki sem hún hafði gert samninga við, né svíkja íslenskt samfélag um stórkostlega hátið sem búið var að leggja svo mikið í að skipuleggja.  

Gert var samkomulag við listafólk hátíðarinnar, samstarfsstofnanir og viðburðastaði um að birta dagskránna í heild sinni á vefsíðu Listahátíðar föstudaginn 3. apríl, líkt og upprunalega hafði verið gert ráð fyrir. Þar kom fram hvaða viðburðir höfðu verið valdir á hátíðinni í ár, hvaða listafólk stóð að baki þeim og hvar þeir yrðu haldnir. Hins vegar var farið þá óvenjulegu leið að birta dagskránna alfarið án dagsetninga

Á vefsíðu Listahátíðar var hægt að skrá sig á póstlista fyrir hvern viðburð fyrir sig til þess að missa ekki af því þegar nýjar dagsetningar yrðu tilkynntar.  

Listagjöf varð til sem viðbragð við Covid faraldrinum.

Teymi Listahátíðar í Reykjavík 2020

Listrænn stjórnandi: Vigdís Jakobsdóttir
Framkvæmdastjóri: Fjóla Dögg Sverrisdóttir
Kynningarstjóri: Berglind Pétursdóttir
Verkefnastjórar: Anna Rut Bjarnadóttir, Friðrik Agni Árnason, Ása Dýradóttir, Kara Hergils, Gunnar Karel Másson
Ritstjóri: Salka Guðmundsdóttir
Hönnun: Ulysses

Dagskrá 2020

Alla dagskrá Listahátíðar 2020 má sjá í Gagnasafni Listahátíðar hér.

18 viðburðir á aðaldagskrá voru framkvæmdir á tímabilinu 1. júní 2020 - 30. júní 2021.
12 viðburðum á aðaldagskrá var frestað til 2022.
3 viðburðum á aðaldagskrá var aflýst.
2 viðburðir á aðaldagskrá fengu aðra birtingarmynd.
Um 34 þúsund manns sóttu viðburði hátíðarinnar. Þar af sóttu tæplega 5000 manns viðburði í Klúbbi Listahátíðar í Iðnó.

Klúbbur Listahátíðar 2020

Upphaflega átti Klúbbur Listahátíðar að vera í Iðnó í þrjár vikur á hátíðinni í samstarfi við þáverandi rekstraraðila. Að beiðni Reykjavíkurborgar tók Listahátíð Iðnó í listrænt fóstur yfir sumarið. Í júní og júlí er óhætt að segja að húsið hafi iðað af lífi eða allt þar til önnur bylgja faraldursins skall á í byrjun ágúst og við neyddumst til þess að loka húsinu að mestu. Við lítum svo á að Klúbbur Listahátíðar sé mikilvægur vettvangur þar sem rými gefst til þess að dýpka samtalið og lækka þröskuldinn inn á hátíðina. Allir viðburðir í Klúbbi Listahátíðar eru ókeypis. Klúbburinn er afslappaður og óformlegur. Hann er gátt fyrir jaðarhópa, fyrir grasrótina, og rúmar óendanlegan fjölbreytileika. Í Klúbbnum framseljum við valdið til hópa sem taka rýmið yfir og gera að sínu án listrænna inngripa að ofan. 

Uppskeran af svona starfi er að klúbburinn fyllist af hópum sem hefðu mögulega aldrei sést á Listahátíð annars. Sem dæmi má nefna að þegar unga listakollektívið Post-dreifing tók yfir Iðnó í heilar tvær vikur í júlí voru fastagestir þar flestir á framhaldsskólaaldri og fram á þrítugsaldur. Í vikunni á eftir kom sirkushópurinn Hringleikur og þá fylltist allt af fjölskyldufólki. Helgin sem við tileinkuðum heimstónlist í Klúbbnum var vel sótt af annars vegar miðaldra fólki og hins vegar suður-ameríska samfélaginu í Reykjavík.

Myndaalbúm