21. maí — 5. júní 2016
 
ludurhljomur-kross-vefur

„HEIMA“ – Kallað eftir hugmyndum

Kallað er eftir hugmyndum að verkefnum á  Listahátíð í Reykjavík 2018

Skilafrestur er til miðnættis 8. maí 2017.

 

Listahátíð í Reykjavík er orðin að tvíæringi á ný og mun næst fara fram 1.-17. júní 2018. Þema hátíðarinnar að þessu sinni verður ,,Heima“.  Hugtakið er einfalt og margrætt í senn og er opið til túlkunar.

 

Meðal annars má skoða hugmyndina um „heima“ í ljósi breyttrar heimsmyndar og þeirrar hreyfingar sem nú er komin á jarðarbúa bæði vegna stríðs- og efnahagsástands. Hvað er „heima“ fyrir þeim sem hefur misst allt? Að hve miklu marki hafa aukin ferðamennska, netheimar og alþjóðavæðingin áhrif á hugmyndir okkar um „heima“?

 

„Heima“ má líka skoða í menningarsögulegu samhengi. Árið 2018 verða liðin 100 ár frá því Ísland hlaut fullveldi. Hvað er heimaland? Hvernig tengist „heima“ sjálfsmynd einstaklinga og þjóðar?

 

Hvenær líður okkur eins og við séum „heima“? Hvað tengir okkur við staði og annað fólk á þann hátt að okkur finnst við vera „komin heim“? Er listin ef til vill leit að þessari tengingu?

 

Öllu listafólki er frjálst að senda inn hugmyndir fyrir hátíðina og mega þær vera af hvaða stærðargráðu og vera á hvaða vinnslustigi sem er; allt frá hugmynd að fullbúnu verkefni.  Á Listahátíð er sérstök áhersla lögð á nýsköpun og verkefni þar sem ólíkar listgreinar skarast. Þá er leitað eftir þátttökuverkum, verkum í almenningsrými og fjölskylduvænum viðburðum.

 

Hugmyndum þurfa að fylgja eftirfarandi upplýsingar:

 

Nafn á ábyrgðaraðila
Netfang
Símanúmer
Titill/vinnutitill á verkefni

Stutt lýsing á hugmynd/verkefni (250 orð)

Nánari gögn eins og við á

 

Hugmyndir sendist á netfangið: [email protected]