21. maí — 5. júní 2016
 
Innri-vefur-2040x380_7

Eistnaflug er handhafi Eyrarrósarinnar 2017

Eyrarrósin, sem árlega er veitt framúrskarandi  menningarverkefni á landsbyggðinni var afhent við hátíðlega athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri fimmtudaginn 16. febrúar. Það var tónlistarhátíðin Eistnaflug á Neskaupstað sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin.

 

Að Eyrarrósinni standa í sameiningu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands og var þetta í 13. sinn sem verðlaunin voru veitt. Við upphaf athafnar í Verksmiðjunni undirrituðu Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listhahátíðar, Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands samninga um áframhaldandi samstarf um Eyrarrósina allt til ársins 2020.

 

Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í höfuðstöðvum verðlaunahafa síðasta árs. Sami háttur var hafður á nú og því voru verðlaunin veitt í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

 

Frú Eliza Reid sem hefur nú tekið við sem verndari Eyrarrósarinnar tók til máls og ræddi meðal annars um þá breidd og fjölbreytni sem einkennir þau verkefni sem tilnefnd eru í ár og óskaði öllum sem komust á Eyrarrósarlistann til hamingju. Að lokum afhenti forsetafrúin viðurkenningar og tilkynnti að Eistnaflug væri handhafi Eyrarrósarinnar árið 2017.

 

 

Verðlaunin sem Eistnaflug hlýtur er fjárstyrkur; tvær milljónir króna, auk nýs verðlaunagrips sem hannaður er af Friðriki Steini Friðrikssyni vöruhönnuði.

 

Alþýðuhúsið á Siglufirði og Vesturfarasetrið á Hofsósi,  sem einnig voru tilnefnd til verðlaunanna hlutu hvort um sig 500 þúsund krónu peningaverðlaun.

 

Dómnefnd hafði eftirfarandi um tónlistarhátíðina Eistnaflug að segja:

„Eistna­flug er orðin rótgróin og stöndug tón­list­ar­hátíð sem hald­in er í Nes­kaupstað aðra helg­ina í júlí ár hvert. Um er að ræða einu tón­lista­hátíðina hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þung­arokk og aðrar jaðar­tón­list­ar­stefn­ur. Marg­ar af þekkt­ustu þung­arokks­sveit­um heims hafa komið fram á hátíðinni en hátíðin styður líka við bakið á ung­um og upp­renn­andi hljóm­sveit­um og hef­ur rutt veg­inn fyr­ir þó nokkrar ís­lensk­ar sveit­ir á er­lend­um út­gáfu- og tón­leika­markaði. Skipu­leggj­end­ur eru stolt­ir af góðu orðspori Eistna­flugs sem „rokk­hátíðar sem fer fram í bróðerni og sam­stöðu“.  Slagorð hátíðarinnar; ,,Það er bannað að vera fáviti” er lýsandi dæmi um þá áherslu sem lögð hefur verið á að gera útihátíð þar sem ofbeldi og slæm hegðun er einfaldlega ekki í boði, þvert á þá ímynd sem þungarokkshátíðir hafa á sér víða erlendis. Hátíðinni hefur tekist afburða vel að laða að innlenda sem erlenda ferðamenn á Neskaupsstað og sýna bæinn í jákvæðu og ekki síður hressilegu ljósi. Eistnaflug er svo sannarlega framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.“

 

Karl Óttar Pétursson og Stefán Magnússon, aðstandendur Eistnaflugs veittu verðlaununm viðtöku. Í þakkarræðu sinni sögðu þeir viðurkenningu af þessum toga vera afar mikilvæga fyrir Eistnaflug og þungarokk almennt, bæði sá heiður sem þeim væri sýndur og fjárstuðningurinn sem honum fylgdi.

 

Kammerkórinn Hymnodia undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar flutti tónlist við athöfnina sem ómaði líkt og úr öðrum heimi í hljómmiklum salarkynnum Verksmiðjunnar á Hjalteyri.

 

Verðlaunafar Eyrarrósarinnar 2017 ásamt valnefnd og verndara verkefnisins frú Elizu Reid

Verðlaunafar Eyrarrósarinnar 2017 ásamt valnefnd og verndara verkefnisins frú Elizu Reid