21. maí — 5. júní 2016
 
Innri-vefur-2040x380_4

LISTAHÁTÍÐ 2010 LOKIÐ –  MIKIL ÞÁTTTAKA OG STJÖRNUREGN

Listahátíð í Reykjavík 2010 lauk um helgina með stórglæsilegri óperuveislu Kristins Sigmundssonar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Óperukórsins í Reykjavík enda ætlaði lófataki gesta aldrei að linna. Mjög góð aðsókn var á viðburði hátíðarinnar sem í ár voru yfir sextíu talsins með þátttöku hátt í sex hundruð listamanna, erlendra sem innlendra. 

Listahátíð var fyrst haldin sumarið 1970 og fagnar því 40 ára afmæli sínu í ár. Hún hófst 12. maí síðastliðinn og opnunarhelgin var mjög fjölbreytt með tónleikum kvölds og morgna, stórtónleikum í Laugardalshöll, leikhús- og djassveislu, útileikhúsi fyrir börn á Bernhöftstorfunni í miklu blíðviðri og opnun yfir 20 ljósmyndasýninga. Hópur erlendra blaðamanna dvaldi í Reykjavík í tilefni af Listahátíð, en að komu þeirra stóð ásamt Listahátíð, Höfuðborgarstofa, Ferðamálastofa og Útflutningsráð. Samstarf erlendra og innlendra listamanna var áberandi á hátíðinni í ár sem og breidd þeirra viðburða sem á dagskrá voru. Upplestrar og tónleikar fóru fram í vinnustofum myndlistarmanna og á heimilum rithöfunda, þar sem hvert sæti var setið. Hafa viðburðir hátíðarinnar hlotið mjög jákvæð viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda, sem lofað hafa dagskrána í ár eins og fjölmargir góðir dómar bera vitni um.

 

Meðal tónleika sem hlotið hafa fjórar og fimm stjörnur gagnrýnenda eru tónleikar norska píanósnillingsins Leif Ove Andsnes og þýsku systkinanna Christian og Tanja Tetzlaff, tónleikar Bedroom Community í Þjóðleikhúsinu, tónleikar Kammerkórsins Carmina sem í tvígang fylltu Kristskirkju og morguntónleikaröð Ágúst Ólafssonar og Gerrit Schuil í Fríkirkjunni, þar sem kirkjan nötraði af fagnaðarlátum áhorfenda í lok flutnings þeirra á Svanasöng Schuberts. Megas sýndi á sér glænýjar hliðar fyrir troðfullu Háskólabíói, framandi tónar finnska galdramannsins Kimmo Pohjonen féllu einnig í frjóan jarðveg tónleikagesta á Nasa og nokkrar kynslóðir dönsuðu sig saman inn í sumarið á stórskemmtilegum opnunartónleikum Amadou og Mariam í Laugardalshöll. Tónlistarhóparnir Adapter og Njúton frumfluttu framsækin íslensk verk og vöktu hrifningu fyrir flutning sinn á nútímatónlist.  Dans- og leiksýningar hlutu einnig frábærar móttökur. Litháískir leikhústöfrar Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu verða lengi í minnum hafðir meðal íslenskra leikhúsgesta og í Þjóðleikhúsinu heilluðu þrjár óhefðbundnar sýningar áhorfendur á öllum sviðum leikhússins.

Hér er hægt að skoða brot úr umfjöllun gagnrýnenda um viðburði hátíðarinnar.

 

Á Listahátíð í ár var áhersla lögð á ljósmyndir með fjölda ljósmyndasýninga í galleríum, söfnum og á götum úti. Standa flestar þeirra fram á sumar þótt formlegri dagskrá hátíðarinnar sé lokið. David Byrne kom á Listahátíð með tvær ljósmyndainnsetningar á götum úti, og sýningin Raunveruleikatékk verður í miðborginni út júnímánuð. Sýning Cindy Sherman, Untitled Film Stills stendur fram á haust í Listasafni Íslands. Allar nánari upplýsingar um opnunartíma allra ljósmyndasýninga á Listahátíð er að finna á vef hátíðarinnar, www.listahatid.is.